top of page

1.

Stundum renna þeir saman í eitt; píanófingur þess vestfirska, varir tölvunarfræðingsins og rakspíralykt upprennandi sálfræðingsins. Ljóð forherta rithöfundarins og nýbakaða ungskáldsins keimlík. Saman mynda þeir þessa fullkomnu heild, hinn fullkomna mann sem birtist einungis þegar sólin sest, þegar svefninn sígur á brá. Fullkomna manninn, sem ég myndi hafna um leið og fuglarnir byrjuðu að syngja, skera á háls, drekka úr honum blóðið, já eða kannski búa til úr því bleikt smjörkrem á uppáhalds kökuna hennar Kötu. Hún á afmæli á morgun, Kata. Eða tæknilega séð á hún líka afmæli núna fyrst að klukkan er orðin meira en tólf, en ég veit svosem ekkert klukkan hvað hún fæddist. Við drekkum alltaf rauðvín, en á miðnætti opnuðum við freyðivín í tilefni þessa áfanga áður en við vöppuðum á DB. Við þurftum þó sjaldan tilefni til þess að skreppa á DB, barinn sem gefur og tekur, þar sem draumar rætast og brotna, líf kviknar og deyr. Þessi bar er sennilega miðja alheimsins; miðja ástarinnar, hrokans, ógeðsins og fegurðarinnar.

 

 

Halló!

 

Óþreyjufullur stofnandi hljómsveitar klósettraðarinnar hefur nú hætt að tromma á klósetthurðina, þó hún sé vissulega prýðis ásláttarhljóðfæri, og taktfast bankið hefur breyst í bjarta kvenmannsrödd. Ég opna dyrnar og fyrir utan stendur dökkhærð, svartklædd stelpa. Þegar ég horfi á hana lítur hún undan, næstum því undirgefin, eins og hún vilji ekkert heitar en að komast inn á þetta baðherbergi og sturta sér niður með klósettvatninu, langleiðina út í sjó, gegnum rör og lagnir, með öllu hinu ruslinu; ein með ruslinu útá ballarhafi. Ég horfi á hana með ógnandi augnaráði, pirruð á fólki sem getur ekki bara beðið í röð án þess að þurfa sífellt að láta þann sem situr á setunni hugsa um sig. Þetta jaðrar við athyglisýki. 

 

Ég fikra mig í gegnum mannþröngina og í áttina að dansgólfinu. Á leiðinni mæti ég margs konar augum; grænum, brúnum, gráum og að lokum tveimur bláum sem ég kannast við. Kata hleypur að mér og faðmar mig að sér. Hún lætur mig vita hvað henni þyki vænt um mig og biður mig um að koma með sér að dansa, segir mér að hún sé búin að finna sér skotmark, mögulegan ástmann til þess að taka með sér heim af vígvellinum. Ég finn titring í rassvasanum og tek símann minn upp. Á skjánum blasa við skilaboð frá þeim vestfirska. Ég hrópa upp yfir mig af gleði. Þegar hann sendir mér skilaboð er eins og ég fái um leið fimmhundruð lítra af morfíni beint í æð. Mér líður eins og ég svífi, þyngdarlaus í þyngdarleysi. Við opnum skilaboðin saman. Við horfum á hvor aðra og ég finn hvað svipurinn á andlitinu mínu er ógeðslegur og væminn og lýsandi fyrir það hvernig mér líður innra með mér; svona eins og einni stórri gúmmíklessu, blaut, slepjuleg og óregluleg í laginu, fljótandi formlaus. Kata gefur frá sér hljóð sem á að tjá þau tilfinningalegu áhrif sem skilaboðin höfðu á hana, samgleði yfir þessari nýfundnu ást eða hvað sem þetta nú er, svo kippir hún mér niður á jörðina.

 

Sætt. En hann er samt svona hundraðþúsund kílómetra í burtu.
Hættu að hugsa um hann, allavegana núna í kvöld. Ég á afmæli.

 

Hún grípur í framhandlegginn á mér og togar mig í áttina að blikkandi ljósunum og dansandi múgnum. Stefnan er tekin í áttina að tveimur strákum sem standa í miðri mannmergðinni, annar þeirra er skotmarkið hennar. Hún hvetur mig til þess að reyna við vin hans, segir mér að hann sé alveg týpa fyrir mig; nýútskrifaður vélaverkfræðingur og líka svona listaspíra eins og ég, gítarleikari! Ég virði hann fyrir mér, hann lítur svosem ágætlega út. Tónlistin hérna inni er mjög há. Ég finn fyrir bassanum í hjartanu í mér. Ég horfi á allt þetta dansandi fólk sem hefur komið hingað til þess að missa sig í brjálæði, gleyma hversdeginum og lenda frekar í ævintýrum næturinnar. Vanalega er ég hér í sömu erindagjörðum. Ég kem hingað allar helgar og dansa, Næturdrottningin, eins og mamma kallar mig, í leit að uppbroti á hversdeginum, í leit að nýjum karakterum í söguna, skammtímaelskhugum eða jafn vel lífsförunaut; vélaverkfræðingi, gítarleikara, bassaleikara, lækni. Hingað kem ég allar helgar í leit að nýrri sögu, nýju upphafi, en í kvöld er þörfin á algleymi ekki jafn sterk og áður. Í kvöld langar mig ekki að gleyma deginum og birtunni, vestangolunni. 

 

Kata sér einhverja vinkonu sína og hleypur í áttina til hennar sem þýðir að ég stend ein eftir með gaurunum tveimur. Verkfræðingurinn gefur sig á tal við mig og við spjöllum saman, eins vel og aðstæður leyfa. Við skiptumst á nöfnum og atvinnuheitum, eigum samræður um lagaval plötusnúðsins og tilefni næturbrölts okkar beggja. Þegar við erum orðin uppiskroppa með umræðuefni ákveðum við að fara saman á barinn. Hann kaupir handa mér drykk til þess að bæta upp fyrir það hvað hann hefur lítið að segja.

 

Ég horfi yfir dansgólfið og kem auga á stelpu sem ég þekki. Hún dansar eins og ótamið dýr, nýbúið að sleppa úr búrinu. Það er eins og hún viti ekki af öllu fólkinu sem er í kringum hana - eða kannski er henni bara sama hvað öllum meðalmönnunum inni á þessum skemmtistað finnst um hana og hvernig hún dansar. Ég skil ekki hvernig hún getur sleppt sér svona, hvernig hún getur gefið líkamann sinn gjörsamlega á vald tónlistarinnar án þess að hika. Á móti henni á dansgólfinu birtist maður. Ég kannast við hann, kannski hef ég séð hann í sjónvarpinu. Hann réttir henni viskíglas, hún horfir djúpt í augun á honum á meðan hún tekur sopa. Þau dansa á milli þess sem þau hrópa upplýsingar um sig sjálf eða spurningar um hitt í eyrað á hvoru öðru. Þau færast nær hvoru öðru með hverjum takti. Skyndilega tekur hún af skarið og kyssir hann og hann kyssir hana á móti eins og góður mótleikari gerir. Ég skil ekki hvernig hún gat tekið þessa ákvörðun en kannski er það viskíið sem gerir hana svona hugrakka; dansandi eins og dýr, kyssandi menn eins og ekkert sé sjálfsagðara. Hún hverfur út um dyr skemmtistaðarins og inn í ævintýrið sem hún á nú með þessum ónefnda mótleikara, kannski verður það aðeins einnar nætur langt og kannski verður það lengra, en hún hrífst af honum og hann hrífst af henni líka, eða hún heldur það allavega og vonar það innilega. Svo skiptir hún um áhugamál og fer á aðra staði, hún hættir að gera sumt og annað og þetta og hitt, breytir mataræðinu sínu, elskar sjónvarpsþætti sem hún hataði alltaf, breytir orðaforðanum sínum, hverfur úr vinahópnum sínum, eða öfugt, og skyndilega verður ALLT fallegt; löng sumarsólsetur og margra daga gamalt þurrt og tætt pulsubrauð fá jafn stórt pláss í hjarta hennar, allt í einu veit hún allt um lirfur og fiðrildi og öll ljóðin hennar öðlast vængi eins og lepidoptera af því að hún sagðist líta út eins og lirfa, vafin inní sængina í kuldanum en hann sagði að hún væri eins og fiðrildi og hún notar miklu fleiri hjarta-emoji en áður, jafn vel svona með augu úr hjörtum því hún er svo full af ást að hún á nóg fyrir alla sem verða á vegi hennar, alla í heiminum jafn vel og kannski gæti þessi strákur elskað hana jafn mikið og hann elskar þessar fimmtíu og tvær svörtu og hvítu nótur. 

bottom of page