top of page

1

Stundum er eins og andlit mitt sofni á vakt. Þeir andlitsdrættir sem eiga að myndskreyta hugsanir mínar eru vonlausir. En ég kvarta ekki undan vanrækslunni, þvert á móti fagna ég henni.  Þegar fólk brosir sést hvað það er að hugsa. 

Ég lít í kringum mig en kem ekki auga á minn líkan – þetta er aðallega fólk sem hefur tekist að komast í gegnum lífið án þess að velta hlutskiptum mannsins nokkurn tímann fyrir sér.

2

Kona sem stendur við hliðina á mér segir við mig að ég sé myndarlegur maður.  Ég þoli ekki hrós því þeim fylgir sú ábyrgð að bregðast við. Sjálf er hún klædd í látlausa mussu sem er eins og sérhönnuð til að undirstrika hvað hún er óspennandi í laginu; sniðin á hina hrósandi manngerð sem er uppfull af framtakssemi án þess að hafa fundið henni farveg í lífinu. Ég geri mig kurteisan á móti.

Hún er svona kona sem heldur sig í stykkinu; sýnir hlýhug og góðvild, reglusemi og skilvirkni og þráir ekkert heitar en að vera misnotuð af yfirmanninum sínum. Þessi kona gæti kannski talist falleg innan þess samfélagshóps sem hún tilheyrir, en ekki hér.

 

 

3

Ég kem auga á konu sem ég gæti sætt mig við og  kem mér fyrir í aðgöngulegri fjarlægð. Ég veit ekki hvernig ég ætti að skipuleggja mig lengra fram í tímann. Ég hitti svo sjaldan þá sem ég vil þekkja, að þegar ég loksins hitti á einn slíkan kann ég ekki lengur að kynnast honum. Eflaust er þetta ástæða þeirra sem leggja sig almennt fram í samskiptum óháð vægi þeirra hverju sinni - til að halda sér í framkomulegu formi.  

 

Áður en ásættanlega konan nær áttum sínum nær þéttholda maður að pikka í mig pakka af sígarettum. Ég afþakka pent, en kemst ekki hjá því að móðgast yfir afskiptasemi þessa manns, sem er langt frá því að vera mér jafnoki hvað varðar útlitslega burði. Svona gerist þegar ranghugmyndir fólks ganga fram af líkamanum sem hýsir þær.

 

Hann gerir sig ljótari með því að brosa. Mig langar að segja við hann eitthvað óafturkræft en næ að róa mig niður með því að líta á hann sem vandaðan og snyrtilegan náunga ef maður dregur alla fyrirhöfn út úr jöfnunni. 

 

Hann segir við mig að ég hljóti að vera leikari og ég spyr hann hvort honum sé alvara. Ég veit ekki hvers vegna ég hef ákveðið að hneykslast - slík pikköpplína er í fullkomnu samræmi við hans manngerð. Ég segi við hann að ég hafi ekki áhuga. Hann brosir við framhleypninni í mér. Ég dáist að því hvernig hann hlær með öllum líkamanum, eins hann kunni ekki að skammast sín.

 

4

Mér leiðist og leiðist inn í samtalið sem er að eiga sér stað við hliðna á mér. Annar er greinilega að segja hinum frá einhverju sem honum finnst mikilvægt; hans sjálfskipaða hugðarefni og hjartans máli. Ég heyri ekki hvað hann segir, en það eitt að sjá einhvern útskýra eitthvað sem hann hefur hefur útskýrt oft áður er kvíðavaldandi; í nákvæmri röksemdafærslu og ótrvíræðri réttlætingu, horfandi þétt í augu viðmælanda síns eins og hann vilji steypa hann í sína fastmótuðu hugmyndafræði.

Hinu megin á reykingarsvæðinu kem ég auga á hóp sem ég tilheyrði einu sinni. Ég treð mér gegnum svartklæddan þéttleika og inn að þeim. Ég  segi að það sé langt síðan síðast og beini orðum mínum aðallega að þeim aðila sem ég þekkti nánar en hina. Tilþrifalaus raddblær hans og kalt viðmót hinna gefa til kynna að ég sé óvelkomin hér. Ég segist ætla inn að dansa, en fer inn á bað.

Á leiðinni reikna ég í huganum hvað olli taktleysu minni þessu sinni og grunar að sökin liggi í félagslegri þröngsýni hópsins og vanhæfni hans til að innlima nokkurn einstakling.

 

Ég lít í spegilinn sem miðlar kunnuegri blöndu af góðvild og fyrirlitningu. Ég horfi áfram þar til svipir okkar sameinast í yfirvegaða flatneskju. Ég er ekki hér til að hitta á neinn sérstakann, ég er bara að reyna að kortleggja mannganginn. Mér er alveg sama þótt aðrir hafi ekki vitsmunalega burði til að mæta mér á jafningjagrundvelli. Mér þarf ekki að finnast neinn fallegur. Maður er manns nóg.

5

Samkvæmt hugmyndafræðilegum, félagslegum og sálrænum altímalögmálum á maður að sofa á nóttunni gegn því að vera vaka á daginn. Þeir sem kalla nóttina ‚næturlífið‘ láta glepjast af þeim geislabaug sem umvefur orðið ‚líf‘ og hjúpar næturveruna ákveðnum lífleika. En allar þær hliðar tilverunnar sem nóttin afhjúpar uppgötvar hún sem forboðna; þeir sem kynnast á nóttunni þekkjast ekki í raun; það sem gerist á næturlífinu telst ekki með. Þessar óþolandi kringumstæður búa yfir undarlegu, svörtu lífi. Nóttin er jafnframt síðasti hugsanlegi samastaður manns sem á sér ekki líf lengur. 

Efasemdamaðurinn segir mér að vakna vakna vakna. Hann hefur skvett framan í mig vatni. Ég segi honum að nóttin líði íblönduð dögum. Hann segir að ég verði að lesa fleiri leikrit til að vitna ekki alltaf í það sama. 

6

Barþjónninn ber með sér kunnulegan svip sem ég átta mig á að tilheyrir æskuvinkonu minni. Andlitsfarði hennar er nær því að fylgja uppskrift af heimatilbúinni kássu frekar en almennum siðareglum;  eins og blanda af öllu sem til er og vonað það besta. Þegar við vorum yngri stunduðum við svokölluð sálarskipti, sem fólust í því að skiptast á fötum og nöfnum þegar við mættum hvort öðru, og við hittumst oft á dag. Við hljótum að hafa verið ansi nákomin.

Ég velti fyrir mér hvort hún teljist enn til vina minna þó ég þekki hana ekki lengur, eða hvort við þekkjum eitthvað sameiginlegt sem við getum talað um og látið eins og við þekkjumst. Á æskuárunum byggist eining vináttunnar á sameiginlegum leikreglum, en þegar fullorðinsárin ganga í garð víkur hún fyrir menningunni þar sem hver menningarhópur skapar sín gildi. Kannski er brotthvarf æskunnar óhjákvæmilegur léttir – kannski eru menningarlegar tilgerðir framfarir þeirra blekkingarleikja sem skilgreina bernskuna - kannski líður sjálfsmynd vináttunnar með tímanum og vináttan er þá tímabundin eining sem í upphafi merkir sameiginlega tilhlökkun, og seinna sameiginlegan söknuð.

Röðin er komin að mér. Ég brosi. Hún heilsar mér kunningjalega og segir að ég fái drykkinn á fjölskylduprís. Afrakstur æsku minnar er  þrjátíuprósentafsláttur.

7

Hinu megin við barinn kem ég auga á andlit sem ég er ekki vanur að sjá í hinum þrívíða heimi. Hann lyftir upp glasi í átt að mér áður hann klárar úr því. Ég tek eftir gylltum hring en ég hef tamið mér að sniðganga slík tákn innan þessa veggja. Hamingjusamlega giftir einstaklingar eru sjaldgæf dýrategund hérna inni, og í þeirra fámenna eðli að stefna sér sjálfviljugir í útrýmingarhættu.

 

Ég kippist til við að einhver grípur utan um axlirnar á mér. Ég sný mér að honum. Ég held að þetta sé sami maðurinn og var hinu megin við barinn, ég er ekki viss. Ég ákveð að svo sé.

 

Maðurinn spyr hvort ég komi oft hingað, en er á svipinn eins og hann viti það betur en ég. Óhaggandi viðbragðsstaða hans gefur til kynna að hann sé einvaldur framvindu þessa samtals; spurningar mínar kalla á hans tilbúnu svör. Hvert hik frá mér er hans tækifæri til að nýta lykilsetningar sínar sem gefa til kynna að við séum nógu sammála til að semja um tímabundinn áhuga á hvoru öðru. Hann veit nákvæmlega hvaða samtal hann er að eiga. Ég þekki þessa týpu. Hann hefur verið þessi karakter oft áður. 

 

Það er eitthvað spennandi við menn sem tala eins og þeir séu að lesa af textavélum; mig langar að vita hvað þeir eru að hugsa á meðan þeir tala. Eða hvort þeir hugsi yfir höfuð.

Ég læt mig hverfa þegar hann byrjar að greina frá fegurðinni í nútímalistum. Það hefur enginn einlægan áhuga á nútímalist. Engir nema lygarar halda því fram.

 

9

Ég lít í kringum án þess að nokkuð grípi áhuga minn. Það fer að koma sá tími þegar þeir einu sem eftir standa eru annaðhvort of misheppnaðir til að finna upp á frekari ævintýrum eða of heigulsamir til að fylgja þeim eftir. Ég vil síður heiðra slíka heiðra óskilmuni með tilkomu minni.

Ég mæti hóp af fyrrum samferðafólki sem mig langaði einu sinni að ríða, drepa eða giftast. Nú eru þau orðin af mönnum sem einn daginn munu renna út á forréttindum og konum sem tíminn hefur tekið misvel á. Ég er fegin því að hafa þroskast frá þeim á sínum tíma; á skalanum einn til tíu er meðaleinkunn þeirra fjórirkommafimm.

10

Ókunnugur maður ásetur sér að sameinast mér á dansgólfinu. Skynsemin vill ýta honum frá mér en innst inni er ég þakklátur fyrir dólgslætin í honum, sem eru upplífgandi tilbreyting frá almennri siðvitund fullorðins fólks sem virðist sammælast um að fyrirlíta allar sínar frumstæðu hneigðir.

 

Bilið á milli okkar er orðið að engu. Það er eitthvað ómótstæðilegt við menn sem eru góðir að dansa. Ég hugsa með mer að ef ég myndi nokkurn tímann vilja skuldbinda mig einum manni væri það maður sem gæti dansað - ef hann myndi dansa við mig öll kvöld væri hann líklega nóg. Ég gæti skammast mín þegar hann dansaði of mikið og skammað hann þegar hann gerði það ekki og og og – skyndilega stöðvar hann dansinn til að spyrja mig blíðlega hvort þetta sé í lagi. Með þessari einu spurningu hefur honum tekist tvennt: í fyrsta lagi, að sýna fram á gæsku sína og góðvild. Í öðru lagi, að útiloka sjálfan sig úr kynlífi mínu.

11

Við efasemdamaðurinn sameinumst í augnaráði sem leiðir okkur saman inn á klósett. Við þurfum að svitna smá vitsmunalega til að halda okkur í markvissu formi.

Við  söfnum saman af ástríðufullri meinfýsi litríkum frösum sem fólk lætur út úr sér. Þetta er okkar sérviskusamlega aðferð til að  tjá okkur tilfinnanlega í rökvíslegri fjarlægð. 


Við skiptumst á að reka upp þá þræði sem við höfum ofið í gegnum kvöldið. Hann byrjar á að segja frá þeim samræðum sem eru honum enn ferskar í minni, en hann er varla byrjaður á frásögninni þegar hann er hrifinn af nýuppgötvuðu smáatriði sögunnar, sem hann síðan tengir  við tilvistarlegan sannleik sem hann endar á því að kjarna í stílfræðilega einingu eðli mannsins. Hann endar á að segja að þetta séu þó engir vitleysingjar, bara fólk sem hefur ekki uppgötvað heimskuna.

Hann klínir sér í spegilinn og segist aldrei finna fyrir nágrönnum sínum því enginn vilji gera úr honum nýlendu, að hann hafi aldrei mátt þola banvæna sjúkdóma á eigin skinni; að hann þekki hvorki hungursneyð né skæðar plágur, og að friðsæl trúarbrögð setji hugsunum hans svo fastar skorður að hann hafi aldrei fengið að vera hamingjusamur. 

Ég segi honum að hugga sig við að einhvers staðar er einhver að uppgötva sitt uppsafnaða misrétti frá vanrækslu foreldra sinna, út frá eigin sannfæringu sem er sjálfbær um að næra eigin skelfingu. 

Hann segist stundum bara vilja vera vitgrannur einstaklingur. 

 

bottom of page