2.
Plötusnúðurinn spilar óhefðbundna tónlist fyrir DB en hefðbunda tónlist fyrir almenninginn þetta kvöldið; lög með skiljanlegum texta, kunnuglegum laglínum og fjögurra hljóma viðlögum. Kata dansar við vin verkfræðingsins og virðist líka það vel svo ég þarf að halda manninum með verkvitið uppteknum. Ég stend á dansgólfinu og reyni að dilla mér í takt við lagið.
Yellow diamonds in the light
And we're standing side by side
As your shadow crosses mine
What it takes to come alive
It's the way I'm feeling I just can't deny
But I've gotta let it go
We found love in a hopeless place
We found love in a hopeless place
We found love in a hopeless place
We found love in a hopeless place
Shine a light through an open door
Love and life I will divide
Turn away 'cause I need you more
Feel the heartbeat in my mind
It's the way I'm feeling I just can't deny
But I've gotta let it go
Kata og verkfræðingsvinurinn kyssast og þar með staðfestist að ég mun njóta þess sem eftir er af kvöldinu án hennar. Það er alveg frábært að vera með Kötu, hún er skemmtileg, fyndin og uppátækjasöm, en hún er líka stjórnsöm. Hún vill alltaf hafa stjórn á hlutunum í kringum sig. Það reynist mjög erfitt þegar kemur að ástinni. Síðustu ár hefur hún mikið verið að smíða. Hún hefur verið að smíða allskonar veggi, og þeir eru flestir staðsettir umhverfis hjartað í henni. Þeir eru sterkbyggðir úr stolti og límdir saman með óöryggi. Kata á marga vini og kunningja en hún hleypir ekki hverjum sem er inn fyrir veggina, því að þá er hætta á því að hún muni særast, þurfa að afsaka sig, fyrirgefa og -
elska. Þetta gerir að verkum að það er mjög erfitt að deita. Það er erfitt að opna hjartað sitt eins og hauslaus hæna og eiga í hættu á að vera gjörsamlega hafnað af einhverri ókunnugri manneskju, svo að Kata deitaði bara ekki, fyrr en hún hitti Kjartan. Hann var sá fyrsti sem hún hleypti inn fyrir þykkan skráp stærsta líffæris líkama hennar; Kjartan, maðurinn með gullkeðjuna. Við sáum hann fyrst á dansgólfinu hér á DB. Hann var sirka tveir metrar á hæð, frekar slánalegur með stór augu. Hann hafði burstaklippt hár svipað á litinn og íslensk kindakæfa. Hann var klæddur í hvíta strigaskó, svarta Adidas peysu og með gullkeðju hangandi um hálsinn. Ég sé það núna að Kjartan leit smá út eins og dópsali, en á þessu augnabliki setti klæðaburður hans ekkert strik í reikninginn og þegar séntilmaðurinn spurði mig hvort hann mætti kyssa bestu vinkonu mína á munninn var ég frekar stuttorð
Ha, jájá er það ekki bara?
Kata og Kjartan áttu ekki margt sameiginlegt nema það að byrja bæði á K og hafa reynslu af veitingastörfum, hún var þjónn og hann vann í eldhúsinu á American Style í Hafnarfirði. En þegar þau höfðu, að þeirra beggja mati, kynnst efri og neðri góm hvors annars nógu vel í gegnum liprar tunguhreyfingarnar þarna á miðju dansgólfinu, ákváðu þau að kíkja heim. Það var gamlárskvöld og á leiðinni heim héldust þau í hendur og fylgdust með eldglæringunum svífa um himinhvolfið. Á þessu augnabliki fannst Kötu það hreinlega skrifað í skýin; ,,Maður lífs míns árið 2018”. Brátt myndi þó renna nýr dagur; himininn gyllast og skýin umbreytast í marmara. Kjartan var ekkert meira en maður leiksins árið 2008, á Pollamótinu í Eyjum.
Síðan þá hefur aldeilis hellingur af vatni runnið til sjávar og ég veit ekkert hver maðurinn er sem hún er með núna, en hún mun sennilega fara heim með honum innan skamms, heilla hann upp úr skónum, æla svo í rúmið hans og taka strætó heim til sín. Hún mun aldrei sjá hann aftur. Hún vill aldrei sjá þá aftur.
Sjálf er ég ekkert skárri þegar kemur að þessum málum. Undanfarið hef ég verið með nokkrum mönnum, og þau sambönd hafa ýmist varið stutt eða aðeins lengur, en ég virðist alltaf henda þeim frá mér sem elska mig mest og halda sem fastast í þá sem elska sjálfa sig mest; sjálfselskendur svokallaða, eða sjálfshatara. Ég held að það sé það sama. Ég held þeim fast sem eru svo sjálfhverfir að þeir geta ekki með nokkru móti komið fram við mig af ást né blíðu. Minn maður er svona maður sem er svo upptekinn að sjálfum sér að ef maður vissi ekki betur héldi maður að jörðin, sólin og allar heimsins stjörnur snérust um sporbauga hans.
Kannski leita ég sífellt að manni sem hvergi er hægt að finna. Mér finnst ég samt ekki vera með það miklar kröfur. Mig langar bara í einhvern sem er frekar sætur, klár, fyndinn og góður og lætur mér líða eins og ég sé sérstök. Mér má samt ekki líða eins og ég sé of sérstök því þá ofmetnast ég og finnst hann bara asnalegur og ekki nógu kúl og hætti með honum. Mig langar bara í einhvern sem skilur mig og hlustar á mig en stendur samt upp í hárinu á mér ef honum finnst ég valta yfir hann. Hann verður að vera tilfinningavera og listrænn. Hann gæti til dæmis skrifað ljóð eða lag eða bók um mig, en hann má samt ekki vera of væminn, það verður að vera einhver töggur í honum. Ég er líka spennufíkill þannig ég þarf einhvern dularfullan, einhvern sem ég veit stundum ekkert hvað er að hugsa, einhvern sem er frumlegur og ævintýragjarn, alltaf til í að prófa eitthvað nýtt, og kannski smá hvatvís. Það er samt ekki gott ef hann er of hvatvís, hann þarf líka að vera tiltölulega stöðugur og yfirvegaður því ég er svo hvatvís og stundum þarf ég einhvern til þess að draga mig niður á jörðina. Hann þarf að vera fyndinn og skemmtilegur svo það sé gaman að vera með honum, haffa gaman og lifa lífinu. Samt þarf líka að geta verið alvarleiki, ekki bara endalaust grín og djók. Það mætti segja að leit mín að draumaprinsinum; þessum dularfulla, gáfaða og góða gangi ansi brösulega. Meira að segja rithöfundurinn hafði ekkert frumlegra né ljóðrænna að segja en
Mér finnst þú mjög sæt og skemmtileg en mig langar ekki
að særa þig.
Ég fatta að ég hef ekki sagt stakt orð við verkfræðinginn í dágóða stund en það er svosem í lagi þegar tónlistin er spiluð svona hátt og ljósbirtan stillt svona lágt. Ég lít á hann og augu okkar mætast. Hann horfir djúpt í augun á mér og færir sig nær mér eins og til þess að undirbúa næsta skref til þess að kynnast mér betur.
Heyrðu, ég þarf að skreppa á klósettið.
Ég tel störfum mínum lokið í þessu útkalli og tek af mér vængina sem fylgja hlutverkinu. Ég læt mig hverfa frá honum í leit að nýju viðfangsefni, nýju atvinnuheiti. Ég kem auga á nokkrar hræður sem ég var með í menntaskóla. Við föðmumst og ég á enn einar innihaldslausar samræðurnar við fólk sem mér er sama um. Síminn titrar.
Ert þú á vappinu?*
Forherti rithöfundurinn hefur sent mér sömu skilaboð og öll önnur laugardagskvöld.
*vappa
(sagnorð)
1. ganga óöruggur eða ruggandi - waddle; toddle;
2. slæpast - ramble; amble;
3. vera í veiðihug - prowl; be prowling
Ég læt hann vita af staðsetningu minni og korteri seinna er hann mættur á dansgólfið.