top of page

1

 

Ég geng inn á konu að þerra á sér augun til að mála þau upp á nýtt. Ég spyr hvort allt sé í lagi. Hún svarar ekki. Ég tek utan um hana, klappa henni varfærnislega á bakið og tala um sorgarferlið, náungakærleikann og annað sem í slíku samhengi er félagslega ásættanlegt. Hún klappar mér á bakið, eflaust sem merki um að faðmlaginu skuli ljúka.

Ég segi henni að heimurinn sé tráma, fólk sé triggerandi og maður verði bara að díla við lífið. Hún lítur á mig. 

 

Ég bæti við að hver og einn standi frammi fyrir því vitsmunalega eilífðarverkefni að bera skynbragð á hvers konar veruleiki mænir á mann hverju sinni. Sá sem ber skap sitt utan á sér veit ekki hvernig honum líður, og sá sem veit hvernig honum líður finnur það ekki á sér. Hún segir mér að fara. Ég stefni út á gólf.

 

Enginn nema tíminn fær læknað hennar fáfróðu sál. 

2

 

Orð friðsælunnar eru trú, von og kærleikur; orð fegurðarinnar eru þokki, vandvirkni og sjaldgæfi. Orð ljóðsins eru vetur, vor og haust. Orð sögunnar eru tíminn, lífið og aldrei aftur - orð tónlistarinnar skipta ekki máli. Á meðan friðurinn stillir, fegurðin uppfyllir, ljóðið líður og sagan svíður er það tónlistin sem hreyfir við einingunum; hún er ölvandi hreyfiafl sem gerir mönnum kleift að blandast hvor öðrum. Ég veit ekki hvernig hún virkar en þegar kemur að henni þekki ég ekkert eðlilegra en dansinn. Líkt og fljúgandi vænghafar, streymandi sæfarar og malandi gæludýr hlýtur maðurinn að vera dansandi dýrategund. Ég trúi ekki öðru. Sá sem ekki dansar hefur breytt líkama sínum í búr. 

Ég leysist upp í taktinum en safnast saman þegar annar spyr mig hvort ég sé bara einn hérna. Ég segist vera meðal vina. Í sannleika sagt kom ég ekki með neinum - hingað kem ég til að vera einn. Hann spyr hvað ég heiti. Ég þykist ekki sjá hann. Lífið er of stutt fyrir lágvaxna menn. 

 

Ég sakna upphefðar.

2

Efasemdamaðurinn birtist eins og snjórinn á jólunum og dregur mig út úr hópnum. Ég þekki þetta uppskrúfaða fas – hann er í sínum vingjarnlega árásarham.

 

Við troðum okkur fram fyrir röðina og læsum að okkur. Við erum nógu hágvaxnir til að komast upp með slíkan yfirgang. Við hýfum okkur reglulega upp til að lenda ekki meðal þeirra sem eru ekkert nema skoðanir í jakkafötum og ástæður í hælaskóm. Hrokinn heldur okkur í formi.

 

Hann segir mér frá nýjasta viðfangsefninu, að hún hafi innilegan áhuga á sálfræði og hafi þess vegna byrjað að útskýra fyrir honum eina vinsæla kenningu - sem segir að álit manns á öðrum sé í raun manns eigin sjálfsmynd yfirfærð á eitthvað mæðtækilegra, og að honum hafi þótt þetta upplífgandi umræðuefni miðað við þau  sem vanalega þrýfast innan sömu veggja, en um leið og hún fór að endurtaka tiltekna frasa afhjúpaðist hennar fátæklegi hugtakalisti sem gaf til kynna að kunnátta hennar á viðfangsefninu væri dregin úr tíu mínútna skyndikúrs á netinu. Hann bætir við að hann geti þó ekki áfellst hana – hún reyndi í það minnsta að vera áhugaverð. 

 

Ég segi honum frá þéttholda manninum og konunni sem var fullkomlega enganveginn. 

Við höldum áfram að tala vandlega niður til þeirra sem lesa ekki annað en leiðbeiningar og skrifa ekkert nema innkaupalista þar til ég missi skyndilega tökin á hugsunum mínum og ég sleppi út í einni runu að ég vilji bara finna einhvern sem mér finnist ekki viðbjóðslegur, að mig langi bara að snerta einhvern án þess að kúgast og vera snertur án þess að kasta upp eftir á og hvers vegna það gerist svona sjaldan að ég sjái einhvern án þess að vilja skafa af honum andlitið, og hvernig flestir geti mögulega þolað að lifa í svona ljótum líkömum; linum, hrjúfum, slepjulegum og formlega lömuðum af gegnumgangandi leti og af hverju ég þurfi að hata það svona mikið, og og og og og og og og og og og og af hverju ég þurfi að vera svona mikill mannhatari.

 

Ég næ ekki að greina sjáanleg viðbrögð hans við þessari munnræpu minni vegna þess að ég hef á einhverjum tímapunkti grafið andlit mitt í brjóstkassann á honum. Ég er ekki vanur að beita vini mína slíkri nánd; þetta er undantekningartilvik. Okkar samrunna líkamsstaða er eflaust nær því að vera klaufalegt faðmlag föðurs og unglingssonar frekar en rómantískt. 

Skyndilega hlægjum við eins og seinfatta menn sem uppgötva tilgang brandarans löngu á eftir áætlun. Endurtekningin hefur umbreytt okkar þokkalegu hetjudáðum í örvæntingarfullan gamanleik. Við skellum okkur í vegginn og látum okkur síga niður á gólf. Bassinn svíður í gegn.

 

Hann segir loks að ég sé ekki mannhatari, að ég hati ekki menn því ég finni of mikið fyrir þeim. Hann bætir við að hatur sé ekki tilfinning, heldur afsökun þess sem kann ekki að útskýra hugsanir sínar. Ég spyr hann af hverju við séum ekki löngu farnir að dansa.

 

Hann segir að maður þurfi fyrst að safna ástæðum fyrir því að líða eins og manni líður áður en maður getur farið að upplifa allt hitt. Ég veit ekki hvernig hann býst við að ég svari þessu.

 

Hann gerir sig ljóðrænan og segir að við séum skrifaðir í tengiskrift; að við séum eins og þessir skökku stafir sem teygja sig til hvors annars til að halda sér uppi. Ég veit ekki hversu mörg lög hafa verið samin um það hvernig mér líður nákvæmlega núna. Líklegast öll.

 

Ég halla mér upp að honum, eins og ég þekki hann ekki einungis í raun, heldur í raun og veru. Ég finn vímuefnatengd áhrif og uppskrúfaða einlægni blandast saman í ölvandi væntumþykju og hugsa upphátt að ef hann skyldi verða fyrr af okkur til að deyja myndi ég skrifa ævisöguna hans í tengiskrift. Hann segir að ef því yrði öfugt farið myndi hann í hreinskilni sagt ekki gera slíkt hið sama, en hann myndi kannski minnast á mig í sinni eigin.

 

      Ég veit aldrei hvar ég hef þig, segi ég.

 

      Við erum bláþræðir hvors annars, segir hann.

3

Ég helli drykknum í plastglas til að ferja út á reykingarsvæði. Barþjónninn lætur mig vita af tilraunum þeirra til að verða umhverfisvænni. Ég lýg því að ég muni hafa það í huga næst. Heimsendir er eins og hvert annað seinnitímavandamál - ég heilsa honum þegar ég mæti honum, ekki fyrr.

 

Barþjónninn eltir mig inn ganginn, sennilega vegna þess að ég hef á einhverjum tímapunkti ákveðið að taka öll plastglösin með mér. Ég segist vera að taka til. Hann sakar mig um að vinna ekki hérna. Ég saka hann um að gera ráð fyrir að fólk hjálpi ekki launalaust.

 

Hann biður mig um glösin. Ég segi honum að maður eigi ekki að gera ráð fyrir hlutunum, að allir séu einhvers staðar staddir í lygum einhvers og ranghugmyndum annars og hver og einn hefur rétt til þess að velja sína blekkingu sjálfur því skilyrðislaus sannleikur hafi aldrei verið valkostur. Hann nær ekki að hrifsa af mér glösin því ég hef troðið þeim inn á mig.

 

Ég segi við hann að sannleikurinn sé í sífelldri afmyndum, að maður undirstriki það sem maður vilji að sé satt, feitletri það sem maður vilji að sé merkilegt og hvítletri það sem maður kærir sig ekki um, og þannig móti maður heimin í kringum sig með hinum óeftirteknu áherslum eigin væntinga til lífsins.

 

Ég bæti við að sannleikurinn sé í besta falli misskilningur; að kenningar og staðreyndir séu einungis tilgátur sem maður meðtekur til bráðabirgða þar til maður þarf þær ekki lengur, að eiginlegur tilgangur þeirra sé því ekki að öðlast þekkingu á raunveruleikanum, heldur felst hann í sjálfshjálpargildi þeirra hverju sinni, og að eiginlega hlutverk fullvissunnar sé að mynda ímyndaðan fleka á ólgusjó tilverunnar, og að ég hafi einfaldlega reynt að kollvarpa hans fleka í von um að hann myndi kenna sér að synda.

 

Ég ætla að bæta fleiru við en þá er hann farinn einhvert annað. Þótt hann heyri ekki í mér hvísla ég til hans í boðhætti að synda, synda fráls.

4

 

Myndarlegur maður býður mér upp á drykk og ég geri mér upp ölvandi samþykki. Fötin hans eru enn vafin ljómanum úr búðarglugganum. Hann ber með sér pólitískt yfirbragð; talsmáti hans samastendur af ókláruðum setningum sem fléttast í klisjur. Það er eitthvað dásamlega tímabundið við þennan mann.

Ég þygg drykk af manninum sem er nógu gamall til að geta verið faðir minn. Hann spyr mig hvort mamma mín sé nokkuð sátt við að ég skuli ekki vera löngu farin að sofa. Hans tiltekna sérmál gefur til kynna að væntingar hans kalla á viðbrögð sem eru ólík þeim sem ég er vanur að temja mér. Ég ákveð að gefa honum tímabundið forræði yfir persónu minni og segi honum að ekki segja neinum. 

Hann spyr hvort ég vilji kíkja inn á skemmtistað sem stendur hinu megin við götuna, ég þykist vera of þreyttur til þess. Ég er fullmeðvitaður um mitt staðbundna gildi. Ég klæddi mig sérstaklega upp í þennan stað; hérna fell ég svo vel inn í umhverfið að ef ég stigi fæti einhvert annað myndi ég umsvifalaust breytast úr týpu yfir í tískuslys.

Hann reynir að tala mig til að fylgja sér þangað. Ég treysti honum ekki svo við endum heima hjá honum.

bottom of page