top of page
1
1

Framvindan er handan okkar kunnáttu. Okkur hefur tekist að sannfæra hvorn annan um spennandi samtvinnun alla leiðina hingað en handritið hefur endað áður en við löggðum af stað. Við höfum ekkert að segja.

Hann situr í eina stólnum í stofunni. Ég skoða mig um. Klukkan á veggnum útskýrir fyrir mér að áhugi hans á mér hafi ekki stafað af eiginlegri hrifningu, heldur því neyðarástandi sem skapast þegar skemmtistaður stefnir í tímabundið rekstrarhlé. 

Það er eitthvað í loftinu sem sem gefur í skyn að samviskubit muni bíða mín í náinni framtíð. Mig klæjar í veggina. 

2

Þegar ég veit ekki í hvað stefnir finn ég ró í að kortleggja veikleika annarra; þær venjur sem fólk leitar í þegar það finnur fyrir óöryggi, einmanaleika, eða óuppgerðum sökum við fortíð sína. Með öðrum orðum: það sem neyslumynstur þeirra gefa til kynna.

Innanhúshönnunin hér inni er of samkvæm sjálfri sér til að geta verið samkvæm honum sem bendir til þess að hann sé óákveðinn í lífinu; ófáir speglar benda til þess að sjálfsvirðing hans hangi annars staðar; myndalausir veggir benda til þess að hann skammist sín fyrir börnin sín.

Ég spyr hvað sonur hans sé gamall. Hann segist ekki vilja ræða það núna. 

3

Hann er hættur að brosa, líklegast því hann þarf þess ekki lengur. Þegar aðrir eru svona meðvitaðir um sitt nánasta umhverfi verð ég svo meðvitaður um sjálfan mig; eins og ég lamist af annarra manna hugsunum um mig. Óöryggi hans er smitandi.

Hann spyr mig hvort ég sé óöruggur. Mér finnst þetta ósanngjörn spurning. Ég hef hafnað í óhjákvæmilegum ósigri; í þessu sambandi er ég í ókunnugu húsi og hann á heimavelli.

4

 

Hann spyr mig um eftirlætis sjónvarpsefnið mig og mér bregður við meðalmennskuna. Áður en hann nær troða sínu persónulega uppáhaldi á mig skýt ég inn í að ég hafi ekki nokkurn ahuga á því sem hann mæli með, að það sé nákvæmlega ekkert í hans fasi; hvorki hegðun né hugsunarhætti, sem vekur forvitni mína nægilega til þess.
Hann hlær. Hann heldur að ég sé að grínast. Hann segir að ég sé fyndinn., en vegna vanþekkingar hans á raunveruleikanum hefur ranghugmynd hans um persónu mína lítið gildi.

Hann talar um sjaldgæfi þess að þurfa enga brú til að verða að sjálfum sér í samskiptum við aðra. Ég hlæ, en ekki af tilhneigingu heldur til að hafa það skýrt að ég sé ekki að tengja. Hann kemur sér fyrir í stólnum á móti og gerir sig líklegan til að opna sig. Fyrr en varir er hann byrjaður að tala um einmanaleikann. 

 

Ég íhuga að finna til með honum en ákveð að láta það kyrrt liggja – hann finnur svo mikið til með sjálfum sér að það yrði tvíverknaður. Ég segi honum að ef hann hættir ekki að væla fái hann ekki að ríða mér, og bý mig undir að vera krafinn frekari réttlætingar á mínu óforskammaða innskoti. Hann svarar engu, lætur sig síga dýpra ofan í sætið og biður mig um að syngja eitthvað. Ég samþykki hikandi, óviss um hlutverk mitt í slíku samhengi.

Ég kemst út af laginu með því að segjast vera of fullur fyrir þetta. Hann sammælist mér í skyndilegu viðbragði og kyssir mig. Ég held að misvísandi raddblær minn hafi orðið til þess að orðin hafi farið þvert gegn meiningu sinni.

Hann segist ætla að sækja eitthvað inn í eldhús og kemur úrklæddur til baka. Ég nem þessar upplýsingar án þess að bregðast við þeim. Hann horfir á mig eins og ég megi gjöra svo vel. Ég loka augunum því ímyndunarafl mitt þyrstir í eitthvað annað. 

5

Ég finn ekki til neinnar sérstakrar tilfinningar. Hjá mér fer ekkert adrenalínflæði af stað. Ég hef áður leitað í þessa spennutilfinningu án árangurs; ég stressast ekki upp í aðstæðum sem og þessar sem eru til þess fallnar. Sennilega er þetta tækniatriði; spurning um hormónaskammta og sértæka heilastarfssemi.

Hann skekkir leikinn til að sækja getnaðarvörn. Mér finnst það óþarfa varúðarráðstöfun. Hann snýr aftur fullvarinn, með tilheyrandi áferð og hljóðum. Ekkert minnir jafn ákaft á raunveruleikann. 

 

Tíminn tekur sjálfhverfa ákvörðun um að ganga hægar svo ekki ein einasta sekúnda fari til spillis.

6

Ég man ekki hvar fötin mín eru eða hvernig þau litu út og vil ekki vekja hann til að hjálpa mér við leitina. Eflaust er hann vakandi að þykjast vera sofandi. Þögult samþykki gildir um að ræða ekki þykistuleikinn af ótta við að rjúfa hann. Ég finn allt nema nærbuxurnar mínar. Það verður að duga.

Ég rata út og enda aftur á sama stað.

 

bottom of page