1
1
Það rignir einum samfelldum vegg af vatni og fötin mín gefast upp, göturnar gefast upp, allt gefst upp; holræsin ná ekki að kyngja nógu hratt.
Ég birtist mér í búðarglugga. Maður á víst ekki að dæma bókina út frá kápunni en máltækið er byrjað að mygla.
2
Dyravörðurinn horfir á mig eins og ég skuldi honum pening. Ég er hættur að taka honum persónulega því hann horfir svona á alla; hann fær borgað fyrir að fylla fólk af tilefnislausri sektarkennd. Það er í hans verkahring að píra augun til að viðhalda þeirri valdblekkingu sem hjúpar hann. Án hennar væri hann strákur í flíspeysu.
3
Staðurinn er enn á sínum stað en þeir sem ég þekki eru farnir. Ég er ekki farin því ég er of þreytt til að hugsa. Hér er ég meðal kvenna sem árin hafa tekið misvel á og manna sem einn daginn renna út á forréttindum. Hver og einn hverfur í krafti fjöldans.; hvert hik milli orða, hökkt milli gjörða og bil milli manna hefur orðið að ekki neinu. Svona leggur tíminn andrúmsloftið undir sig.
4
Maður með skegg spyr mig hvort við þekkjumst ekki og ég segi að það sé undir honum komið. Á þessu stigi máls er öruggast að ramma samræðuna inn í einfaldar forsendur, bæði til að tryggja mig gagnvart eigin vanþekkingu og einnig vegna þess að ég vil fara að komast í háttinn og það er ódýrara sofa hjá þessum manni heldur en að borga taxa heim.
5
Ég er staddur fyrir utan blokkaríbúð manns sem ég þekki stundum. Ég man ekki af hverju. Svona er lífið í hnotskurn. Sumt gerir maður, annað ekki og smátt og smátt verður allt venjulegt.