1
Hann kemur til dyra þreyttur og fölur - eins og klæddur í fjarveru mína. Í hvert sinn sem ég banka á þessar dyr vona ég að nýr maður komi til dyra, en einveran er litur sem næst illa úr fötum. Mér þykir vænt um hann því honum þykir vænna um mig en sig sjálfan.
Hann spyr hvernig ég hafi það og ég svara einhverju vanalegu. Það þýðir ekkert að spyrja hvernig manni líður; svarið verður í besta falli misskilningur.
Ég segi við hann að ég vilji helst ekki sofa hjá honum, en þar sem ég komist ekkert annað og hann hafi engan annan sé hann skyldugur til að hleypa mér inn. Hann eltir mig upp stigaanginn.
2
Draslið inni hjá honum er heimilislegt. Ég skima svæðið, kem auga á mig á einum veggnum og tek mig til í andlitinu.
Hann segir að ég þurfi ekki að mála mig svona upp því ég sé náttúrulega fallegur. Ég efast um að geta útskýrt þessa vanafestu fyrir honum ef hann þekkir hana ekki nú þegar - hann veit ekki að förðunin sé heilög hefð sem nær jafn langt aftur í tímann og mannkynssagan; að fegrunin sé friðsæl athöfn sem setji hugsunarhætti manns fastar skorður; að útlitsdýrkun sé ekki læknanlegt einkenni, leysanleg ráðgáta eða tímabil sem víkur fyrir öðru - hann skilur ekki að útlitsdýrkun sé byggð á gildum og fagurfræði eins og öll önnur trúarbrögð, og að án hennar myndi lífið innihalda ekkert nema nýja daga, óvæntan hlátur og spegil sem skiptir ekki máli lengur. Ég kinka kolli en sál mín segir nei.
3
Hann réttir mér vatnsgals. Hann er hættur að útbúa mat fyrir mig því hann veit að ég mun ekki borða hann.
Hann spyr hvernig ég endaði hér. Ég segi að síminn sé dauður. Hann segir að vandinn við þessi tæki sé að maður læri á þau án þess að læra að vera án þeirra. Ég segi að það sama gildi um fólk nema þveröfugt. Hann er sammála. Hann er alltaf sammála.
Hann segir að stundum sé eins og augun mín bili án þess að lokast, eins og þau hætti tímabundið að vinna þau störf sem þeim er treyst fyrir, og þegar þau sofni á verðbergi sleppi ég inn í völundarhús hugsanna minna þar sem ég dvel lengur í hvert sinn. Þetta er eitthvað sem hann segir reglulega en orðar betur með hverju skiptinu. Ég veit ekki hvort sök þess liggi í endurtekningunni eða orðavalinu, en ég er farin að taka mark á því.
Ég segist þurfa að mæta annað snemma í fyrramálið. Hann segir að ég þurfi ekki að bulla. Hann ákveður oftast að trúa mér ekki áður en hann trúir mér. Það á rétt á sér því ég ákveð oftast að ljúga áður en ég ákveð að ljúga ekki. Með þessu móti varðveitum við ákveðna tryggingu í örvæntingu hvors annars. Þetta er eina leiðin til að viðhalda þeim neista sem samband okkar krefst. Að byggja samband á trausti myndi ganga gegn tíðaranda sem trúir ekki á trú yfir höfuð.
Hann spyr hvenær hann megi eiga von á mér næst. Ég segi aldrei. Hann segir að það sé í lagi svo lengi sem ég fari ekki að trúa því sjálfur.
Mér dettur í hug að segja eitthvað óafturkræft en hætti við; ég má ekki segja honum það sem hann vill heyra því ef ég missi hann verð ég einni manneskju fátækari. Það hentar okkur að tala ekki um mikilvægu hlutina og kannski er það í lagi; kannski eru sambönd gerð úr fleiru en orðunum sem skreyta þau.
Hann spyr hvort mér þykji hamingjan afbrigðileg, því það sé svo erfitt að finna hana í öðrum og ómögulegt að finna hana einn. Ég ætla að svara skilmerkilega en læt mér nægja að segja jamm, eins og ég búi fyrir afslöppuðum skilning á lífinu.
Ég þykist sofna og hann slekkur ljósin. Ef þetta er ást er hún ofmetin.