top of page

8.

Ég hringi í fimmáttaáttafimmfimmtveirtveir. Ég bíð á bílastæðinu við höfnina og fylgist með fjöllunum. Fjöll eru sennilega yfirveguðustu fyrirbæri sem fyrirfinnast. Þau eru alltaf að hreyfast og breytast en samt sést það aldrei á þeim. Þessi tegund fyrirbæra hefur á sér háþróaaða grímu, sem er einstaklega hentug í pókerspil og hvítar lygar. Ég rifja upp kvöldið þegar ég hitti Vestfirðinginn síðast. Hann hélt svo innilega utan um mig, eins og hann ætlaði aldrei að sleppa. Nokkrum klukkustundum síðar uppfærði hann svo Tinder aðganginn sinn, fyrir allra augum, og ég skil ekki hvort ég hafi verið of sæt, með of mjúkar varir eða of næs fyrir hann, hvað það var sem hrinti honum í burtu frá mér þegar hann gat ekki hætt að faðma mig að sér alla nóttina, hrósa mér og taka í höndina á fjölskyldumeðlimum mínum daginn eftir, hvort ég drekki kannski of mikið kaffi, sé með of margar bólur, tali of mjúklega, ekki nógu gróft fyrir hans smekk, ruslið inná baði hafi verið yfirfullt og ógeðslegt, ég hafi verið of ógeðsleg, hvort hann hafi kannski lesið það sem stóð á enninu á mér: 

ÓGEÐSLEG. ERFIÐ. ERFIÐ KONA. ERFIÐ. ÓGEÐSLEGA ERFIÐ. 

 

Með honum finnst mér ég vera í eilífum svefngalsa; þreytt en ekki alveg sofnuð, föst í þröngri sprungu milli svefns og vöku, millibilsástandi. Millibilssprungan. Þar er gaman, spennandi, þar er ekkert víst, engin festa, aðeins óvissa. Þar líður mér best og verst. Með honum líður mér best og verst. Ég sest á brunahanann því mér finnst við vera saman í þessu, bæði svona hálfgul á litinn einhvern veginn, stálslegin og full af vökva, bíðandi eftir högginu svo allt geti gossast út. Mér er óglatt og ég veit ekki hvort það sé útaf áfenginu eða skömminni. 

 

Ég kem auga á leigubílinn. Ég opna dyrnar og sest í framsætið, bílstjórinn brosir til mín. Bílstjórinn er fullorðin kona, sennilega um sextugt, skolhærð og ögn búttuð eins og fylgir oft aldrinum, já nema fólk stundi hjólreiðar eða hlaup daglega náttúrulega. Ég tek þó aðallega eftir augunum á henni sem eru áberandi blá á litinn og stór, augnhárin merkilega löng. Þetta eru augu sem gætu alveg heltekið mann. Hún spyr hvert förinni sé heitið og ég svara. Við keyrum Sæbrautina og eitthvert tilfinningaþrungið ástarlag spilast í útvarpinu. Hún býður mér að velja aðra tónlist. Hún les hugsanir, veit af sálarþjáningu minni, engill í mannslíki kominn mér til bjargar. Ég tek hana á orðinu, skipti um stöðvar þangað til að ég ramba inn á Jón Jónsson á Létt-Bylgjunni. Ég horfi út um gluggann og virði fyrir mér öll húsin, bílana, staurana, kraðakið. Mér finnst ég vera föst innan um þessar útlínur. Ég lít út um gluggann hennar megin. Sólin læðist upp bleikan himininn og speglast á sléttum bárulausum sjónum. Hún fjarlægist sjóndeildarhringinn óðfluga. Fjöllin blá í fjarskanum. Ég orða það við þá bláeygðu hvað Snæfellsjökullinn sé stórkostlegur í þessari birtu og hún er sammála mér. Það eru aðeins örfáar hræður á vappi, annað hvort nývaknaðar eða rétt ókomnar í draumalandið, á síðustu metrunum heim í bælið. 

 

Við komum að gatnamótum og sú bláeygða ætlar að beygja upp Snorrabrautina en ég stoppa hana af.

 

Gætirðu keyrt mig í Hvalfjörðinn frekar?

Hvalfjörðinn?

Já takk.

 

Ég svara frekar stuttaralega til þess að gefa í skyn að ég vilji ekki útskýra mál mitt frekar, hún samþykkir beiðni mína hikandi og keyrir áfram. Ég halla mér upp að köldum bílglugganum. Höfuðið á mér hristist en formfast yfirborð gluggans styður við innviði hugans. Ég get ekki hugsað hálfa hugsun áður en næsta hefur skotið upp kollinum. Þær ná sjaldan að hreiðra almennilega um sig, ein kemur og önnur fer - eins og fjölpósturinn og gegnumtrekkurinn, inn, út, inn, út. 

 

Þegar við erum komnar langleiðina í Mosfellsbæinn finn ég mig knúna til þess að brydda upp á einhvers konar samræðum við þessa konu, bæta upp fyrir þráláta þögnina af minni hálfu. Ég spyr hana hvort hún sé héðan úr bænum og hún neitar, segist vera að vestan. Áhugi minn kviknar um leið. Ég spyr hana hvaðan að vestan og hún segist búa á bæ rétt utan við Ísafjörð. 

 

En ég hef aldrei búið beint á Ísafirði. Mamma hefur
alltaf átt þennan bæ sem við hjónin tókum svo við
og hann pabbi hefur alltaf verið í Skagafirðinum.
Ég fór mikið til hans á sumrin. Hann bjó reyndar á
Ísafirði þegar hann var ungur, í eitt sumar.

Já, einmitt. Okey.

Jájá, mamma mín og pabbi voru sko aldrei saman. Ég?
Ég var bara stutt bíóferð.

 

Hún brosir út í annað á meðan hún segir síðustu setninguna sem gefur mér leyfi til þess að flissa frekar en samhryggjast yfir þessum nýju upplýsingum. Hún heldur áfram að tala um lífið eins og miðaldra fólk talar um lífið við ungt fólk, að það sé í raun bara eins og ein stutt bíóferð, framtíðin sé svo stutt og fyrr en varir sé lífið bara búið að gerast. Ég hlusta og tek mark á orðum hennar eins og þægur unglingur myndi gera. Ég hugsa samt með mér að þó að framtíðin sé stutt hefur hún samt ekki alltaf verið það því gamla framtíðin, sem er núna fortíðin, var og er eitthvað svo ótrúlega löng; óbreytanleg, óskiljanleg, leiðinleg og liðin. Þannig er það svosem, fortíðin lengist alltaf og framtíðin styttist og nútíðin hverfur, birtist, stendur aldrei í stað; er og hverfur um leið. 

 

Við keyrum inn fjörð frelsisins, fjörð ástarinnar, ævintýranna, möguleikanna, golunnar (og lúsmýsins ef það er logn. Ég hef samt ekkert orðið vör við þetta lúsmý múslý, það er bara eitthvað annað fólk sem hefur verið að kvarta undan því) 

Þegar allt er í móðu kem ég hingað því hér virðist allt skýrast, eins og mengunin úr borginni nái ekki inn þennan fjörð, eins og hún stoppi við afleggjarann. Hér er bara fagur fuglasöngur, flugnasuð og volg gola, uppþornaðir lækir og nokkrir feimnir sólargeislar sem kíkja við af og til. Nóg af fjöllum, hólum, fellum, slóðum, ótroðnum.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

bottom of page