4.
Tvær konur koma upp að klósettinu og spyrja mig hvort ég sé að bíða, ég kinka kolli og þær taka sér stöðu fyrir aftan mig svo saman myndum við fallega röð, nýja þriggja kvenna klósettraðarhljómsveit. Þær sjá um sönginn, tala og hlæja hástöfum eins og fábjánar. Mér heyrist þær vera að tala um Tinder og ástina og mig langar ekkert meira en að öskra á þær, segja þeim að hætta að hlæja, að lífið sé ekkert svona fyndið, allavegana ekki ástin og sérstaklega ekki Tinder, en rétt áður en ég næ að hella mér yfir þær ryðst fjórða konan inn í söguþráðinn. Hún tekur sér stöðu beint fyrir framan klósetthurðina og bankar á hana saltkjöt og baunir, aðeins úr takt við hlátrasköllin, hún bankar sirkabát hundrað slög á mínútu, en þær eru einhversstaðar í kringum hundrað og tuttugu. Hún lítur út fyrir að vera frekar drukkin þannig ég spyr hvort það sé í lagi með hana. Hún svarar mér með sömu orðum og ég fatta að spurningin var miklu dónalegri en ég ætlaði mér. Við hlæjum saman að hrokafullu viðmóti okkar í garð hvor annarrar og ég tek eftir því að þetta er sama stelpa og trommaði á klósetthurðina hjá mér áðan. Ég held reyndar að ég hafi oft séð þessa svartklæddu stelpu, vappandi um bæinn, bæði á daginn og kvöldin en mest á næturnar. Ég hef aldrei séð hana brosa áður. Það er kannski þess vegna sem ég hélt alltaf að hún væri ekki mín týpa, hún brosir aldrei og klæðist alltaf svartri kápu, eins og hún hafi eitthvað að fela. Klósettdyrnar ljúkast upp og við göngum saman inn á baðherbergið til þess að innsigla þessa nýfundnu vináttu.
Um leið og dyrnar lokast erum við skyldugar til þess að deila trúnaðarupplýsingum með hvor annarri. Hún segir mér að hún hafi hitt tvo fyrrverandi ástmenn sína á barnum á sama tíma áðan. Ég spyr hana hvort það sé ekki frekar týpískt fyrir þennan stað, hún jánkar því og brosir út í annað. Ég segi henni ekki frá mínu uppnámi en finnst ég þó knúin til þess að tala um einhvers konar ástarmál enda við kjöraðstæður. Hún stendur upp af klósettinu og ég tek við, þurrka þó af setunni á milli af gömlum vana og segi henni svo þegar ég er sest að ég sé einmitt að reyna að ákveða hvort ég eigi að svara skilaboðum eins ástmanns eður ei, það setji vissulega strik í reikninginn að hann búi á Vestfjörðum en ég sé samt svo skotin í honum. Hún vill fá að sjá mynd af honum og ég finn sætustu myndina af honum til þess að sýna henni. Hún hefur orð á því hvað hann er sætur og hvetur mig til þess að svara honum. Ég segist ætla að fara að ráðum hennar en geri það ekki því ég þori það ekki.
Ég horfi á mig í spegli og sé hvernig meikið hefur færst til við svitann sem fylgir óhjákvæmilega dansgólfi skemmtistaða. Ég púðra mig og þakka í leiðinni þeim sem fann upp á því galdrameðali sem snyrtivörur eru. Þvílík forréttindi að geta breytt andlitinu á sér svona og lagað að vild, ef ég gæti það ekki fengi ég sennilega ógeð á eigin fési, illa skyggðu og glansandi á röngum stöðum. Fyrst ég er byrjuð á þakkarræðunni þakka ég einnig fyrir þróun og öldrun, að andlit breytist og eldist. Stundum horfi ég ekki á mig í spegli marga daga í röð því ég sé alltaf sama andlitið. Ég bæti á varalitinn til þess að svala ennfremur tilbreytingarþorstanum og þá spyr hún mig upp úr þurru:
Er einhver hluti af þér sem þú vilt ekki kynnast?
Mér bregður við þessa spurningu og hún sér það. Sá hún það á mér að ég sá hann áðan? Mér fannst hún geta lesið mig eins og opna bók, lesið öll mín dýpstu leyndarmál af útlínum djúpra bauganna undir augunum á mér. Ég læt sem ég hafi ekki heyrt hvað hún sagði.
Ha?
Hún endurtekur spurninguna og í sömu andrá pípir hátæknilegt úrið sem ég fékk í jólagjöf frá foreldrum mínum og segir mér að klukkan sé orðin 03:00. Ég færi henni fréttirnar sem úrið færði mér, að klukkan sé orðin þrjú, og spyr hana hvort hún sé ekki að verða búin, hvort ég megi opna dyrnar. Áður en ég labba út bíð ég henni viskískot úr pelanum mínum og minni hana á að halda dampi í kringum gamla drauga.
Maður kemst upp með allt kjaftæði ef maður er góður
í kjaftinum.
Ég geri aðra tilraun til þess að komast að barnum og kemst alla leið í þetta sinn. Rithöfundurinn stendur við barinn á sama stað og alltaf; staðnum sem hann hefur reiknað út að sé best að standa á upp á lýsingu og líkur á stefnumótum við mögulega bólfélaga. Hann býður mér drykk, ég segist vilja viskí og hann pantar fyrir mig Jameson. Ég bið barþjóninn um einn klaka. Við klárum drykkina okkar dansandi og látum okkur svo hverfa út um dyr skemmtistaðarins.
Enn og aftur,
í leit að nýju ævintýri,
af gömlum vana.