6.
Ég labba niður Skólavörðustíginn. Svartur köttur hleypur að mér mjálmandi. Ég beygi mig niður til þess að klappa honum og hann malar. Við njótum selskapar hvors annars. Við horfum á hvort annað eitt andartak og ég spegla mig í augunum á honum. Ég er þreytuleg og hárið á mér úfið en hvíti rúllukraginn og ljósblái jakkinn lífga aðeins upp á andlitið. Upp úr herðunum á mér sé ég glitta í vængina vaxandi. Þetta eru ekki sömu vængir og ég notaði í útkallið, þessir líkjast frekar skordýravængjum en fugla-. Ég hélt alltaf að ég væri bara lirfa, í mesta lagi mölfluga. Með honum gat ég verið dagfiðrildi og náttfiðrildi, hvort sem er, sitt lítið af hvoru, bæði í einu, allt sem ég vildi. Ég hugsa um að senda honum skilaboð en tel það ekki sniðugt svona seint að kvöldi og læt það kyrrt liggja. Svo þori ég það heldur ekki, ég þarf að hugsa allt vandlega út sem ég ætla að senda áður en ég ákveð að senda það á hann, því að þetta má ekki misheppnast. Og ef ég sendi eitthvað sem fellur ekki í kramið þá missir hann kannski áhugann eða þá sér hann kannski að ég er bara mölfluga og skrýtin eða óeðlileg eða kannski eðlileg, of venjuleg, og þá fer hann. Og ég hugsa mikið, hugsa mikið mikið, ef maður hugsar nógu mikið þá getur maður bara hætt við allt saman, guggnað, setið á rassinum allan liðlangan daginn og hugsað og gert ekkert, ekkert gert, því heilabrotin gera jú oss öll að gungum. Svo les ég meira og skrifa þá minna því þegar ég veit meira þá geri ég minna, af því að allur tíminn fer í að læra hvernig ég ætti að gera það og hvað sé rétt eða hvað sé rangt, og ef nokkur skapaður hlutur getur verið bara annað hvort réttur eða rangur, svo missir maður líka allan kjark þegar maður veit meira því þá veit maður líka hvað gæti farið úrskeiðis og maður hugsar allt í fimmhundruð hringi áður en maður gerir nokkuð -
og svo á endanum tek ég enga ákvörðun og ákvörðunin tekur mig.
viska eða dirfska
eða fiska
eða giska
diska
miska (-bætur t.d.)
riska (sletta úr ensku: to risk)
Ég heyri nafn mitt kallað. Ég lít aftur fyrir mig og sé þar upprennandi sálfræðinginn. Hann skokkar í áttina að mér. Við föðmumst á gatnamótum Bankastrætis og Ingólfsstrætis. Ég get alltaf stólað á að hann knúsi mig þegar mér líður illa. Ég er farin að halda að honum þyki það best, þegar mér líður illa. Þá fær hann tækifæri til þess að sálgreina mig, án þess að vita þó nokkurn skapaðan hlut um mig. Hann elskar að hafa völdin í okkar samskiptum, ýfa fjaðrir sínar með fróðleiksmolum sem ég veit nú þegar og sálgreiningu á mínu innra lífi, tilfinningum og reynslusögum sem leiða allar til sömu afleiðingarinnar; hjálparlausu aumingjans konunni sem ég er. Honum finnst það skemmtilegast, að fella mig, því hann elskar að hífa mig aftur upp. Við göngum í átt að höfninni og hann talar og talar og ég hlusta en ég hlusta samt ekki neitt. Hann vill bara að ég sé stelpan sem hann elskar. Hann vill liggja við hliðina á mér, halda utan um mig og kyssa mig á ennið á meðan ég sef en ég get aldrei sofnað. Það syngur í fugli.
Veistu afhverju fuglar syngja? Þeir gera það yfirleitt á
vorin, á pörunartímanum. Í langflestum tilvikum eru það
karlfuglarnir sem syngja og markmiðið er að laða til sín
kvenfugla með kraftmikilli söngrödd sem á að gefa til
kynna hæfni þeirra sem tilvonandi maka. Áður hafa
karlarnir komið sér upp óðölum sem þeir verja af kappi
fyrir öðrum ágjörnum keppinautum sömu tegundar.
Þegar líður á varptímann eyða karlfuglar miklum tíma í
að syngja til skiptis á nokkrum vel völdum og áberandi
stöðum, til dæmis efst í trjám, þar sem þeir auglýsa yfirráð
sín yfir óðalinu. Fuglafræðingar hafa einnig bent á annan
hugsanlegan tilgang með söng karlfugla meðan kvenfuglarnir
liggja á eggjunum. Hugsanlegt er að þeir syngi til þess að
beina athygli rándýra og ránfugla frá hreiðrunum.
Við tökum krók framhjá nýjum byggingum, verðandi hótelum og verslunarmiðstöðvum og hann heldur áfram að tala eins og allt sem hann segi sé lesið beint upp af Vísindavefnum. Við staðnæmumst við sjóinn og virðum fyrir okkur sólarlagið. Hafið er spegilslétt, bátarnir dorma í höfninni, stórir og smáir; skútur, skemmtiferðaskip, fiskitogarar. Hér er fallegt. Hvort mér þyki eitthvað fallegt fer oftast eftir því hvernig mér líður þá og þegar, hvort lífið veiti mér ánægju á þeim tímapunkti, hvort ég sé stressuð eða leið eða þreytt. Sólarlagið finnst mér þó alltaf fallegt, sama hvernig viðrar. Sama hvernig vindar snúa. Sólsetrið endurlífgar mig. Sólarupprásin líka, ef ég næ henni, ef ég er vöknuð nógu snemma eða sofna nógu seint. Hvað er það við vorin sem gerir mig svona maníska, mitt á milli alsælu og kvíðakasts; ástfangna, himinlifandi, dauðhrædda? Þetta gerir maímánuðurinn, sendir á brott hina staðföstu mig og færir mér í staðinn þessa manísku, með farfuglunum, lóunni. Lóa á sumrin. Ýsa á veturnar, syndandi um djúpin; hreistrið hvítt, blóðið kalt. Syngjandi á vorin, kveðandi burt snjóinn, segjandi öllum til syndanna sinna, að senn komi spóinn, sólskin í dali og allt það.
Ertu hamingjusöm?
Hvað meinarðu?
Myndirðu segja að þú værir hamingjusöm?
Sálgreining hafin. Eina ferðina enn.
Jaaá. Já, ég myndi segja það.
Af hverju? Hvað gerir þig hamingjusama?
Mig langar að segja eitthvað einlægt en í staðinn skelli ég yfir mig skikkju kláru konunnar. Konunnar sem talar um ástina á fræðilegum mælikvarða, flokkar tilfinningar í akademísk hugtök, dregur annað augað í pung og myndar setningar úr fimm orðum í einu í mesta lagi. Hún má ekki tala af sér, hún má ekki hljóma pirrandi, eða enn verra; heimskulega.
Fegurð.
Fegurð? Hvernig fegurð?
Bara, fegurðin.
En finnst þér eitthvað fallegt þegar þú ert
óhamingjusöm? Eða ertu óhamingjusöm
þegar það er engin fegurð í kringum þig?
Ég nenni ekki að svara þessu, kannski útaf því að ég er of þreytt, kannski útaf því að ég veit ekki svarið. Hann heldur áfram.
Finnur maður kannski bara hamingjuna í
öðru fólki?
Ég reyni að breyta þessum heimskulegu samræðum í grín.
Kannski. Ég las í blaðinu um daginn að
hamingjusamasta fólk landsins byggi í Grindavík.
Já, við ættum kannski að flytja þangað saman.
Ég veit að þessi athugasemd hans var ekki ætluð til þess að hrekja mig í burtu, þvert á móti sennilega færa mig nær honum, en ég er sérstaklega klígjugjörn gagnvart alls kyns rómans um þessar mundir er varðar ekki Vestfirðinga. Við kveðjumst með faðmlagi og áður en ég sný við horfi ég á hann eitt andartak ganga meðfram höfninni í áttina að heimili sínu. Enn og aftur hef ég brugðist honum, brugðist vonum hans um að koma upp í - en ég er komin með nóg af vinskap og faðmlögum sem koma með aukagjaldi. Ég er komin með nóg af þessu smáa letri.