5.
Það er bjart og hlýtt úti sem þýðir að á leiðinni heim getum við þóst vera ástfangnir unglingar; hann hleypur milli húsa og dinglar bjöllum hjá ókunnugum og ég flissa, segi honum að hætta þessu rugli og svo kyssumst við. Þegar við löbbum heim í rigningu verður ástarsambandið fullt trega, erfiðra spurninga, langra augnsambanda og þá stöndum við á miðri götunni, rennandi blaut, kyssumst af ástríðu, eins og þetta sé síðasta kvöldið okkar á þessari jarðkringlu, líkt og ást okkar sé forboðin, heimurinn vilji slíta okkur í sundur en við drögumst sífellt aftur saman, eins og tveir mínusar sem verða að einum ástarplús. Ástarblús. Þegar það er rok tökum við leigubíl í þrjár mínútur að kjallaraíbúðinni hans og hann borgar.
Við liggjum hlið við hlið í litla rúminu í Þingholtunum. Geislar morgunsólarinnar falla efst á hárlokkana og smá á augnhárin hans og ég horfi á hann, skoðandi bókina sem hann tók á bókasafninu og er að lesa þessa dagana, flettandi, spekúlerandi spekingslegur, fallegur og hugsandi, fyndinn, hávaxinn, skáld; allt sem að ég hélt að ég vildi í karlmanni. En ég finn ekkert. Ég næ í vasabókina mína og bæti við hugleiðingar kvöldsins.
Ég get alltaf huggað mig við það að ég er heimskari í dag en
á morgun.
Hvort eru heimspekibækur sjálfshálparbækur í dulargervi eða
sjálfshjálparbækur grímuklæddar heimspekihugleiðingar?
Við erum að verða verri og verri í að leika þessa karaktera.
Skyndilega rýfur hann þögnina.
Hvað langar þig?
Hann rýfur þögnina eins og ekkert sé, orð hans eins og þruma úr heiðskíru lofti, hreinasti glæpur sem hver maður hlyti lífstíðardóm fyrir. Við töluðum aldrei saman á þessum tíma nætur, það var ekki í handritinu. Við horfðum einungis á hvort annað, snertumst, gáfum ekki frá okkur eitt einasta hljóð, fyrir utan öran andardrátt. Í þetta sinn var eins og hann beinlínis vildi láta dæma sig til dauða, eins og hann væri uppgefinn, búinn að játa sig sigraðan.
Hvað meinarðu?
Nei ég var bara að pæla.
Hva, hvað langar þig?
Nei, ekkert.
Ég brosi. - Ég meina, mig langar alveg í fullt; aðeins
meiri pening, nudd, gill…
Einmitt. Já. Nudd og gill sagði hún. Já, einmitt.
Haha. Hvað meinarðu með þessari spurningu?
Hann hikar. - Bara… Mér finnst þú svo sæt. Og núna
ertu bara allt í einu hérna fyrir framan mig. En já
kannski er það bara nóg.
Ég hef lengi logið að sjálfri mér að forherti rithöfundurinn segi sannleikann. Lengi vel hélt ég að hann elskaði mig, jæja, hann þurfti ekki að elska mig, bara finnast ég sérstök og vilja bara mig en ekki einhverja aðra líka. En rithöfundar eru sennilega versta sort af elskhuga. Þeir eru svo tilfinningaríkir að þeir verða óhjákvæmilega glaumgosar. Annars vegar geta þeir orðið ljóðrænir glaumgosar sem sækjast eftir eigin draumsýn í hverjum elskhuga, og hins vegar epískir fríhyggjuglaumgosar sem sækjast eftir nýjum ævintýrum og fjölbreytni í hverjum elskhuga. Þeir eru líka flestir ímyndunarveikir og hafa þegar lokið við söguþráð sambandsins áður en fyrsti kafli hefst. Þeir eru vanir því að sveipa gjörvallan sannleikann skáldskap og umbreyta skáldskap sínum í sannleik. Rithöfundurinn vill alltaf hafa yfirhöndina og með því að skrifa um ástarlíf sitt breytir hann blekkingu hugarheims síns í raunverulega formfestu.
Ég horfi á hann eitt augnablik og strýk honum um vangann, stend svo upp og klæði mig í hvítan rúllukragann.
Ertu farin?
Já.
Hann horfir á mig hugsi, eins og hann skilji ekkert í mér en skilji mig samt fullkomlega, geti lesið í og skilið hverja einustu frumu líkamans míns en langi það samt ekki; hann langi að ég sé dularfull, skrýtin, öðruvísi. Eins og hann elski það og hati á sama tíma að ég sé að fara frá honum því að hann er listamaður, og hann lifir og hrærist í heimi þversagnanna. Kveðjan hans er skáldleg, að vana.
Við erum svona eins og atómin, þegar þau koma of
nálægt hvoru öðru þá ýta þau hvoru öðru í burtu.