ósönn á hverju laugardagskvöldi þegar þú spyrð mig hvar ég sé niðurkomin og kemur um leið og ég svara til mín því þig langar svo að hitta mig ósönn þegar þú horfir í augun á mér á dansgólfinu á DB og okkur líður eins og við séum bara tvö í heiminum ósönn þegar vinur þinn segir mér að þú sért að leita að mér ósönn þegar við sitjum í leigubílnum hlið við hlið á leiðinni heim til mín ósönn þegar við splittum verðinu í tvennt eitt þúsund áttatíu og fimm krónur á mann ósönn þegar þú segir að ég sé dekruð pabbastelpa þegar þú segir að ég sé hundur og þú köttur þegar þú stríðir mér en mér finnst það ekki fyndið ósönn þegar við sofum heila nótt í faðmlögum ósönn þegar þú horfir í augun á mér og brosir ósönn þegar þú horfir í augun á mér og spyrð mig hvað ég vilji ósönn þegar sólin rís á sunnudegi og ég skutla þér heim ósönn þegar ég sé bílinn þinn fyrir utan hjá henni ósönn þegar ég tek aðra stráka heim með mér af djamminu ósönn þegar það er heiðskírt ósönn þegar það er lægð yfir landinu ósönn þegar ég labba inn á kaffihús og þú ert þar ósönn þegar ég er með sólgleraugu ósönn þegar ég keyri niður að höfn ósönn þegar ég horfi á sjóinn ósönn þegar ég horfi á leiksýningar ósönn þegar ég borða nammi les skáldsögur horfi á sjónvarpsþætti skrifa greinargerðir drekk hafra cappuccino fæ mér viskí með einum klaka labba með hundinn passa ketti labba í strætó fæ far í skólann fæ far úr skólanum fer í Bónus kíki á Messenger swipe-a á Tinder hlusta á Madonnu hlusta á James Blake Simon & Garfunkel þegar ég fer að sofa þegar ég vakna á meðan ég sef