top of page


3.

 

Hann er svona óþolandi týpa sem heillar mann upp úr skónum og lætur mann kúgast á sama tíma með því að kvóta í Laxness.

 

Litla stúlka - þú getur kveikt í sígarettunni minni með
augunum.

 

Ég horfi á hann með svipnum sem ég geri alltaf þegar hann gerist skáldlegur, með fullkominni blöndu af aðdáun og fyrirlitningu. Vanalega reyki ég ekki sígarettur nema eftir nokkur viskíglös og ef það eru sætir strákar á reykingasvæðinu. Við kveikjum okkur í sígarettum með gula BIC kveikjaranum sem ég geng alltaf með í veskinu í sama hólfi og hin dýrmætu djammverkfærin; vasahnífinn og viskípelann. Við spjöllum um yfirborðskennda hluti eins og helstu afrek dagsins, veður, vinda og fáránleika mannlegrar tilvistar. Forvitinn reykingamaður rennur á hljóðið. 

 

Hvað heyri ég, eru tveir litlir existensjalistar hér á ferð?

 

Okkur bregður við spurninguna sem hljómar ansi fyrirlitlega. Ég dreg mig í hlé, eins og sætar stelpur gera. Hann svarar, eins og hávaxnir menn gera. 

 

Hvað meinarðu?

Mér heyrðist þið vera að tala um fáránleika mannlegrar

tilvistar, Camus kannski?

 

Reykingamaðurinn brosir smeðjulega. Rithöfundurinn setur sig í stellingar.

 

Ha jú, jújú, einmitt.

 

Hefjast þá ræðuhöld. Upp úr sér kastar reykingamaðurinn ræðu sinni af sömu áfergju og hann mun að öllum líkindum kasta upp öllum þeim mismunandi drykkjum sem innviði hans geyma í morgunsárið. Hann talar um existensjalista sem verstu þunglyndissjúklinga í dulargervi heimspekinga, segir stefnuna níhílíska og ýta undir svartsýni, hún sé ekkert annað en afsökun fyrir fólk til þess að taka enga ábyrgð og væla undan tilgangsleysi lífsins. 

 

Svo tekur svartnættið yfir allan heim mannsins og hann

steypist ofan í hyldýpi eigin firrtu hugsana þangað til að

á endanum hann getur ekki meira og kálar sér með

tilheyrandi veitingaboðum í félagsheimilum,

afþökkuðum blómakrönsum og svörtum klæðnaði.

 

Ég hugsa með mér að þessi maður sé einstaklega orðheppinn miðað við líkamlegt ástand. Kannski hefur hann einhvern tímann farið á Dale Carnegie. Rithöfundurinn hefur störf við að tala þennan fína ræðumann til, segir tilvistarstefnuna þvert á móti eiga að opna huga fólks fyrir möguleika á betra lífi, stefnan segi að maðurinn búi til manninn og gefi einstaklingnum því aukið frelsi innan staðveru sinnar, möguleika á fjölbreytileika, mismunandi sjónarhornum - en ræðumaðurinn grípur fram í fyrir rithöfundinum og segir að einmitt þess vegna séu þessar hugmyndir fráleitar, þar sem gengið sé út frá því að ekkert í heiminum sé formfast ýti þær undir ábyrgðar- og aðgerðarleysi. Rithöfundurinn segir það öfugt; nei, tilvistarstefnan sé andsnúin aðgerðaleysi því hún segi að ekkert sé raunverulegra en athöfnin, maðurinn sé ekkert annað en það sem hann gerir og það ýti því undir betri hegðun.

 

En tilvistarstefnan hafnar almennri siðfræði?

 

Rithöfundurinn svarar spurningunni eins og hann hafi beðið eftir henni í mörg ár, hann sé búinn að æfa textana hans Sartre utanbókar frá blautu barnsbeini og fái nú loks að ýfa fjaðrir sínar. 

 

Já, akkúrat, þetta leiðir að spurningum um siðfræði - er í

raun hægt að reiða sig á almenna siðfræði? Þú getur alltaf

tekið mið af henni en þú munt samt alltaf taka ákvarðanir

út frá eigin túlkun og þá er það á þína ábyrgð. Þetta er því

ákveðið umkomuleysi, maðurinn getur ekki annað en hitt

sjálfan sig í sífellu og er því í sífelldri þróun. Þrátt fyrir að

átta sig fyllilega á fáránleika eigin tilvistar heldur hann

áfram að lifa eftir bestu getu inní staðveru sinni en með

auknu frelsi, athafnagleði og æðruleysi.

 

Ég kemst ekki að frekar en fyrri daginn þegar tveir ákafir menn tala um mál sem eru þeim hugleikin. Ég hugsa um að troða mér inn í samræðurnar en læt það kyrrt liggja. Skyndilega draga þeir sig í hlé og ræðumaðurinn lítur á mig, hann hefur áttað sig á því að ég stæði enn þarna við hlið karlmannsins sem hann átti í hrókasamræðum við. Hann hrósar mér fyrir augnlit minn og hárstíl, eitthvað sem ég hef svosem oft heyrt frá mönnum í þessum aðstæðum. Um leið og hann lætur orðin falla tekur rithöfundurinn utan um mittið á mér og horfir á mig eins og ég hafi á örskotsstundu breyst úr fífli í fljóð. Svona eru mennirnir góðir.

 

Ég hlakka til að fara heim og skrifa um þessa kjaftaglöðu menn. Þá get ég kannski líka komið mínum skoðunum einhversstaðar fyrir. Er ekkert raunverulegra en athöfnin? Verður hún ekki fyrst raunveruleg þegar hún er á einhvern hátt skrásett? Það sem er ekki skrásett getur enginn sannað að hafi gerst í raun og veru. Það sem er skrásett lifir lengur. Það sem er ekki skrásett deyr. Oftast. En skrásetningin er líka alltaf lituð blekinu sem hún er skrifuð með. Eftir langan tíma getur liturinn breyst, eitthvað mást af, bæst við. Þess vegna er skrásetning athafnarinnar mikilvægari en athöfnin sjálf. Þetta eru samfélagsmiðlastjörnurnar búnar að fatta löngu á undan mér, og kannski bara allir. Skrásetningin gefur okkur vald til þess að breyta athöfninni og þar með minningunni um athöfnina, með tímanum breytist hin raunverulega minning í þá tilbúnu. Og ef skrásetningin er raunverulegri en athöfnin, þá getur ímynduð athöfn, skálduð, orðið raunveruleg ef hún er skrifuð niður. Ævintýralegur hugarheimur rithöfundar jafn tilbúinn og heimurinn sem við köllum raunveruleika - báðir heimar eru búnir til af mannfólki, byggðir upp, skrásettir, ákveðnir af einhverjum, hvernig heimurinn er og hvernig skuli sjá hann. Á þessu byggjum við einhvers konar siðfræði, samfélag, reglur, gildi, sem við trúum á því að tíu grískir gaurar sögðu að það væri svona, lífið væri svona og heimurinn, svona eins og þeir sáu hann, grísku gaurarnir fyrir mörgþúsund árum. Og þetta er ástæðan fyrir því að ég mun aldrei finna ástina í raunheiminum, því að hugmyndir eru betri en raunmyndir. Kannski er það hrokafullur hugsunarháttur, að finnast manns eigin ímyndun raunverulegri en lífið sjálft; ævintýraheimurinn í hausnum á mér betur hannaður en hversdagsleikinn. 

 

Mennirnir góðu hefja leik að nýju og takast á um sannleika og lygi, hvort hlutir geti verið bæði sannir og ósannir á sama tíma, hvað sé rétt og hvað sé rangt. Ég ákveð að láta mig hverfa því ég hef ekki þolinmæði né áhuga á að fylgjast nánar með þessari örvæntingarfullu leit tveggja manna að sjálfshjálp í búningi heimspekilegra rökræðna. 

 

Ég labba inn af reykingasvæðinu og þokast í átt að barnum. Þá sé ég hann. Í minningunni hefur hann ekkert andlit en ég man alltaf eftir hreyfingunum og líkamsstöðunni, eins og ég muni betur hvernig hann ber sig heldur en hvernig hann lítur út. Ég hef ekki séð hann í sirkabát hálft ár, eða síðan ég ákvað að segja besta vini mínum frá þessu sem er líka besti vinur hans. Og nú stendur hann þarna á dansgólfinu, brosandi. Á örskotsstundu er eins og allt vínið renni af mér. Ég hef verið stungin í magann. Öll orkan, víman, uppmáluð lífsgleðin og sjálfstraustið hrifsuð af mér á einni áttundapartsnótu, í síðasta takti lagsins sem ég heyri.
    Fjórir hljómar verða að                                                                              einum.

Hátíðni.    Mér         líður eins og         fótunum hafi      verið   kippt undan mér og það        eina sem geti veitt mér festu á       þessum tímapunkti, staðfestingu á eigin jarðnesku tilvist, sé                   mín eigin spegilmynd.  

Ég labba að         klósettinu og reyni a     ð róa sjálfa m               ig niður, fað ma sjálfa         mig að mér. 

bottom of page