1
1
Maðurinn vill ekki átta sig á sér. Mannkynið hefur drepið nógu marga til að átta sig á því. Maður þarf að halda hugsunum sínum í skefjum svo þær nái ekki að hugsa um sig sjálfar. Meðvitundin er sín eigin martröð. Maður getur hugsanlega hugsað sig til dauða. Ég veit það því ég er lifandi sönnun þess. Shakespeare vissi það líka og skrifaði Hamlet.
Ég segi þetta upphátt án þess að slíta augnsambandi við eigin spegilmynd. Ég er úti á lífinu. Hingað inn kem ég til að taka leikhlé. Ég hef vanið mig á að þylja reglulega upp hugsanir mínar eins og ég sé að lýsa íþróttaleik. Það er mikilvægt að hafa auga með sér þegar allt getur gerst; þegar maður er vakandi á nóttunni er lífið einhvern veginn í beinni útsendingu.
2
Ég kem fram og stilli mér upp við vegg. Ég reyni yfirleitt að staðsetja mig þar sem ekki er grunsamlegt að standa aðgerðalaus. Konan sem stendur við hliðina á mér er upptekin við að drekka rauðvín með augunum. Þegar fólk skoðar sig svona í spegli má skynja ákveðið raunsæi í augnaráðinu, eins og kalt mat á eigin möguleikum til að blekkja aðra.
3
Hér má sjá sömu sýnishorn af fólki og birtast á daginn þó tímasetningin varpi sínu skuggalega ljósi; her eru menn í erindagjörðum, fólk í hópferðum og einstæðingar í tilgangseltingarleikjum. Mig langar bara að eitthvað komi mér á óvart.
Tónlistin hérna er í það minnsta raunverulegri en heima. Þar stend ég frammi fyrir lagavali sem dregur mið sitt af þeim lögum sem ég hef hlustað á áður – eins og til að tryggja mitt persónulega tilbreytingarleysi. Hérna er tónlistin upplífgandi eins og henni var í upphafi ætlað að vera.
Samstarfsfélagi minn veifar til mín frá hinum enda fjöldans. Hún er ein af þessum manneskjum sem einkennast af því að það er aldrei neitt að frétta. Hún er miðaldra með bjargarlaust andlit og í þokkabót klæðir hún sig í afmyndandi liti, en hvort þetta fataval hennar stafi af smekkblindu eða dulinni þrá til að verða eitthvað annað skal látið kyrrt liggja.
Ég þykist ekki sjá hana. Ég vil ekki sjást á tali við hvern sem er; hver vinur og kunningi er áfastur fylgihlutur ímyndar minnar. Hérna inni verður maður ekki þakklátur fyrir aðra, heldur stoltur.
Hún kallar til mín og ég áset mér að bregðast ekki við. Ég hef ekki séð þennan samstarfsfélaga minn í þessu umhverfi áður, hvorki á þessum stað né á þessum tíma sólarhrings. Reyndar man ég ekki eftir að hafa nokkurn tímann komið auga á hana utan vinnutíma, sem hingað til gerði tilkomu hennar bærilega upp að því marki; þannig rúmaðist gervöll tilvera hennar innan ramma vinnunar og hún var einungis eitt af þeim ósýnilegu atriðum sem mynduðu hana. En hingað er hún komin – holdi klædd áminning um að ég hafi verkefnum að sinna þegar raunveruleikinn tekur við.
Hún finnur sér leið að mér. Heimurinn er víðast hvar of lítill til að ráðstafa eigin afskiptaleysi. Hún spyr mig hvort ég sé einn á ferð. Ég segi að það komi henni ekki við. Hún segir að það megi stundum reyna að vera næs, áður en hún sameinast aftur hópnum þaðan sem hún kom. Það var aldrei í mínum verkahring að vera næs.
4
Skolhærð kona teygir sig upp til mín og spyr hvort við þekkjumst ekki, því hún kannist svo mikið við mig. Ég veit ekki hvort ég eigi að þekkja hana því hún er svo venjuleg í framan. Reyndar er hún svo óáhugaverð í útliti að ég get ómögulega haft áhuga á þeim sem hún hefur að geyma. Tilhugsunin um að þekkja hana gerir mig þunglyndan.
Ég segi við hana að sumt fólk sé hvorki ljótt né fagurt, heldur svona enganveginn, og að það verði bara að sætta sig við að vera ekki merkilegri en svo. Hún segist skilja hvað ég meina, en það efa ég því hún heldur samtalinu áfram.
Ég ákveð að gera gott úr þessari ómerkilegu konu og viðra fleiri skoðanir mínar og kenningar. Innskot hennar eru svo máttlaus að ég læt þau ekki trufla mig. Ég skammast mín hálfgert fyrir að deila með henni hugmyndum mínum, en hugmyndir verða ekki góðar fyrr en þær hljóma vel og svona fólk má nýta í slíkar æfingar. Það er alltaf gaman þegar aðrir geta komið manni svona nytsamlega á óvart.
Annar maður grípur inn í og ég átta mig á að þetta er frændi minn. Við föðmumst og að því loknu gefur óhaggandi líkamsstaða hans til kynna að hann vilji stefna þessum samskiptum okkar í samtal. Í þessum kringumstæðum get ég ekki þóst vera hugsanlegur elskhugi sem takmarkar þau umræðuefni sem koma til greina. Ég segist þurfa á klósettið.
5
Ég geng inn á tvær stelpur sitjandi á gólfinu: ein haldandi utan um hina sem reynir að þylja upp nýliðinn atburð í gegnum ekka. Líklegast er hún nýbúin að uppgötva gang lífsins; ég hef vanið mig á að búast við því versta því þá hef ég í versta falli rétt fyrir mér. Ég íhuga að veita stuðning en sé ekki tilganginn með því. Mér leiðast svona mál því þau innihalda engin skrímsli og engin fórnarlömb - bara ástæður fyrir fyrir því að einhverjum finnast ákveðnir brandarar ekki lengur fyndnir. Ég nenni ekki að kanna það nánar og rata út.
6
Ljóshærður maður spyr hvort ég þurfi ekki drykk. Ég nýt umhugsunartímann til að beita leikrænum tilþrifum og segi að efinn liggi milli þess að drekka eða ekki drekka. Hann tekur mér játandi, og pantar tvo eins drykki. Hann skildi ekki þessa tilvísun mína en ég læt það ekki á mig fá; fólk er yfirleitt of heimskt til að átta sig á hvaðan maður er að koma.
Við skálum og skiptumst á nöfnum, atvinnuupplýsingum, frístundafyllingum og öðru sem telst vera uppistaðan í einu lífi. Kannski eru mínar vitsmunalegu kröfur óviðeigandi á þessu stigi máls; í upphafi kvöldsins er sjálfsagt eðilegt að tjáskipti einkennist af félagslegum þreifingum þar sem fólk talar í lykilsetningum og gefur lítið af sér tilfinningalega. En ef hann væri persóna í sögu væri hann letilega skrifaður og til þess fallinn að heilla venjulegar sálir. Ég er hættur að hlusta á það sem hann segir og hyggst brosa en andlit mitt virðist ekki vera opið fyrir samstarfi.
Ég kem auga á vin minn hinu megin við barinn og nota þau einbeitingarhvörf til að ferja mig yfir rýmið. Hann er á tali við einhvern ókunnugan, líklega mögulegan skammtímaelskhuga.
Skoðanaskipti okkar leggja til að við verðum að fara að hittast bráðum, en við meinum það ekki eins mikið og okkur langar.
Ég spyr hann hvað klukkan sé og hann segir mér að halda kjafti. Ég gef honum hneykslsvipinn minn og hann blikkar mig með hálfu andlitinu. Hann er uppáhalds vinur minn því hann er svo mikill efasemdamaður; ég get alltaf stólað á hann til að vera ósammála öllu sem ég segi.
Hann sleppur því að kynna mig fyrir þriðja aðilanum, sem er honum líkt - hann vill síður setja ókunnuga í vinalegt samhengi svo hann haldi þeim lengur á vissu óvissustigi. Hann vill njóta efans svo vafinn bitni á öðrum; fer ekki út að borða án þess að finna sér ástæðu til að senda matinn aftur inn í eldhús. Gæðakröfur hans hafa þó lítið að segja, hann vill bara að aðrir leggi sig alla fram.
Við skálum innilega og snúum okkur aftur að nauðsynlegri erindagjörðum: hann heldur áfram að leggja mat á siðferðisleg líkindi sín og einhvers annars, og sjálfur legg ég í örlagasnauða leit að einhverjum sem hefur hvorki líkamlega burði til að valda fatalausum vonbrigðum né persónulega getu til að drepa mig úr leiðindum.